Nýi Kaupþing banki hefur kært forsvarsmenn Exista til sérstaks saksóknara vegna sölu á hlut Exista í Bakkavör Group þann 11. september 2009. Bankinn hefur einnig kært starfsmenn Deloitte og Logos lögmannaþjónustu til sérstaks saksóknara.
Í tilkynningu kemur fram, að það sé mat Nýja Kaupþings að forsvarsmenn Exista hafi fyrir hönd félagsins brotið gegn ákvæðum 250. grein almennra hegningarlaga með sölunni. Nýja Kaupþing muni jafnframt leita viðeigandi einkaréttarlegra úrræða samhliða kærunni til saksóknara.
Fram hefur komið að þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir létu Exista, sem er að mestu í óbeinni eigu kröfuhafa í dag, fjármagna kaup þeirra sjálfra á 39,62 prósenta hlut Exista í Bakkavör með skuldaviðurkenningu upp á 8,4 milljarða króna. Ekki liggur fyrir hvenær gjalddaginn á láninu er en þetta þýðir að bræðurnir lögðu ekkert eigið fé fram við kaupin.
Þá hafi Nýja Kaupþing kært til sérstaks saksóknara forsvarsmenn Exista og þá starfsmenn Deloitte og Logos lögmannsþjónustu sem önnuðust tilkynningu til hlutafjárskrár vegna hlutafjáraukningar Exista í desember 2008. Að mati bankans fer háttsemi viðkomandi aðila gegn 153. og 154. gr. laga um hlutafélög.
Fyrirtækjaskrá úrskurðaði hlutafjáraukninguna ólögmæta í sumar og gerði alvarlegar athugasemdir við framgöngu lögmanna og endurskoðenda Exista.