Leiðtogar svonefndra G20 ríkja heita því í lokayfirlýsingu leiðtogafundar í Pittsburgh í Bandaríkjunum að koma böndum á áhættusækni bankamanna með því að setja strangar alþjóðlegar reglur um fjármálastarfsemi, þar á meðal um launaauka.
Leiðtogarnir segja að samræmdar aðgerðir og viðbrögð þeirra til að koma í veg fyrir alþjóðlegt fjármálahrun hafi borið mikinn árangur en því starfi sé ekki lokið. Heita þeir því, að draga úr ójafnvægi í efnahagsmálum heimsins og halda áfram að örva fjármálalífið þar til efnahagsbati verður varanlegur.
Þá segja leiðtogarnir í yfirlýsingunni, að stjórnendur banka og fjármálafyrirtækja eigi ekki að geta gengið að háum launaaukum vísum því slíkt kerfi dragi úr ábyrgð viðkomandi stjórnenda og auki líkur á að þeir taki allt of mikla áhættu í fjárfestingum.
Þess í stað eigi stór hluti af hugsanlegum launaauka bankastjórnenda að vera háður því hvort varanlegur hagnaður verði af fjárfestingum, sem þeir standa fyrir.
Segja þjóðarleiðtogarnir, að óhóflegir bónusar hafi stuðlað að allt of mikilli áhættusækni og jafnframt að því samdráttarskeiði, sem verið hafi undanfarin misseri.