Stjórn Stoða hefur falið lögmönnum að láta reyna á riftun fimm samninga sem fólu í sér gjafagerninga eða ótilhlýðilega ráðstöfun fjármuna síðustu 24 mánuði áður en FL Group óskaði fyrst eftir heimild til greiðslustöðvunar hinn 29. september 2008 samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Um er að ræða viðskipti sem hlaupa á milljörðum króna. Í einhverjum tilvikum var um að ræða ráðstöfun fjármuna til aðila sem tengdir eru fyrrum eigendum FL Group/Stoða, en lögum samkvæmt eru gjafagerningar til tengdra aðila riftanlegir allt að 24 mánuðum áður en óskað var eftir greiðslustöðvun. Að beiðni Þorsteins Einarssonar hrl., sem var aðstoðarmaður í nauðasamningum Stoða, voru endurskoðendur Ernst & Young fengnir til að fara yfir m.a. viðskipti tengdra aðila hjá FL Group/Stoðum.
Meðal þeirra viðskipta sem komu sérstaklega til athugunar, samkvæmt heimildum blaðsins, er sala FL Group á Sterling og stofnun NTH í desember 2006 og kaup FL Group á TM í desember 2007, en kaupverðið var greitt með hlutum í FL Group. Einnig hafa verið athugaðar tvær millifærslur upp á samtals 984 milljónir króna frá FL Group til Glitnis í byrjun september 2008, sem engar skýringar virðast vera á.
Stoðir eru nú í eigu um 200 kröfuhafa félagsins. Skilanefnd Glitnis er stærsti hluthafinn með um þriðjung hlutafjár og NBI með fjórðungshlut.