Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, lýsti því yfir í fréttum BBC í dag, að hann muni "banna gamla bónuskerfið" og þvinga þarlenda banka til ábyrgari hegðunar. Hann segir bankana ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og því sé aðgerða þörf.
Brown segir von á nýju frumvarpi um fjármálaviðskipti á næstu vikum. "Við ætlum að hreinsa til í kerfinu í eitt skipti fyrir öll," sagði Brown og að aðgerðirnar yrðu þær ströngustu sem sést hafa. Bónusgreiðslur innan fjármálageirans hafa vakið upp mikla reiði í Evrópu og Bandaríkjunum, þá sérstaklega gagnvart þeim bönkum sem hafa notið ríkisaðstoðar.
Brown segir nauðsynlegt að koma frumvarpinu í gegn, þar sem nú þegar væru dæmi um að bankar væru að taka aftur upp árangurshvetjandi launakerfi sem hvetti til þeirrar skammtímaáhættutöku sem var ein af ástæðum fjármálakrísunnar.
Samkvæmt frumvarpinu yrði breska fjármálaeftirlitinu heimilað að grípa inn í, til að koma í veg fyrir að bankar taki of mikla áhættu.
Yfirlýsing Brown kemur í kjölfar þess að G20 ríkin ákváðu á fundi sínum um helgina ýmsar aðgerðir til að hafa stjórn á bónusgreiðslum banka og hvetja þá frekar til að verðlauna langtímasjónarmið í fjárfestingum. Þar var hins ekki samþykkt ályktun varðandi þak á bónusgreiðslur eins og sumar þjóðir höfðu óskað eftir. Meðal efnahagsveldanna hefur aðeins Holland samþykkt þak á slíkar greiðslur.