Víða er fjallað um það í fjölmiðlum í dag að ár er liðið frá upphafi íslenska bankahrunsins. Í norska blaðinu Bergens Tidende er m.a. haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að honum sé skapi næst að reka bankastjóra gömlu bankanna, fyrrum ráðherra, fyrrum stjórnendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins upp í rútu og senda á verulega heitan stað.
Blaðið vísar til fundar, sem Steingrímur átti með norrænum blaðamönnum. Þar sagði ráðherrann, að rætur bankahrunsins liggi aftur til upphafs tíunda áratugar síðustu aldar þegar hugmyndafræðileg umskipti urðu í stjórn landsins. Við hafi tekið einkavæðing, lækkun skatta og hagkerfið var opnað. Þetta hafi gengið ágætlega til ársins 2002 en þá fóru vextirnir að hækka. Haft er eftir Steingrími, að Geir H. Haarde, sem var fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra á áratugnum 1998-2008 hafi gert öll þau mistök sem hægt var að gera.
Þá hafi ríkisstjórnin veitt hugmyndafræðilegan stuðning við útrásarbrjálæðið og fagnað gagnrýnislaust í hvert skipti sem bankastjórar birtu tölur um ný hagnaðarmet.
Bergens Tidende segir, að Davíð Oddsson, sem lagði grunninn að hugmyndafræðinni, hafi verið seðlabankastjóri þegar hér var komið sögu og því sé óhætt að trúa Steingrími þegar hann segi að engar varnaðarraddir hafi náð eyrum manna.
Þá hefur blaðið eftir Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, forstjóra Saga Capital, að Fjármálaeftirlitið hafi tekið fullan þátt í þessari miklu veislu, drukkið mest, skemmt sér best og farið síðast. Það sé engin furða, að Íslendingum sé nú vísað út úr verslunum víða í Evrópu.
„Við höguðum okkur eins og hrokafullir drullusokkar. Í augum Íslendinga skiptu hraðskreiðari bílar, yngri konur og eldra viskí mestu máli. Nú eru viðbrögðin að koma," segir hann.
Þorvaldur Lúðvík segir, að Íslendingar verði nú að draga úr neyslu og framleiða meira. Endurreisa verði banka og fjármálakerfið.
Bergens Tidende segir síðan, að þrátt fyrir allt ríki bjartsýni á Íslandi. Þar eru jú enn starfandi bankar sem sýni að það séu verðmæti til staðar. Þá séu lífeyrissjóðirnir stöndugir og íslenska þjóðin sé ung. „Íslendingar eru vanir að þurfa að haga seglum eftir vindi."