Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS), sem í skýrslu sinni um íslenska hagkerfið í fyrra spáði því að hagkerfið myndi dragast saman um 9,6% í ár, birti nýja spá í morgun sem gerir ráð fyrir að hér á landi verði 8,5% samdráttur í ár. Í apríl spáði AGS því að samdrátturinn hér yrði 10,6%.
Að hluta er ástæðan fyrir bættum horfum sú, að samdrátturinn í heimsbúskapnum virðist ekki ætla að verða jafn mikill og fyrri spár gerðu ráð fyrir, að því er fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka. Í spá sinni er AGS þannig umtalsvert bjartsýnni á heimsbúskapinn í ár en hann var í júlí s.l. Þannig spáir sjóðurinn að samdráttur í heimsbúskapnum verði að jafnaði um 1,1% á yfirstandandi ári en var áður að reikna með 1,4% samdrætti.
Spá 8,6% atvinnuleysi á Íslandi
Sjóðurinn spáir því að atvinnuleysi verði 8,6% hér á landi að jafnaði í ár en í spánni sinni í apríl s.l. reiknaði sjóðurinn með 9,7% atvinnuleysi í ár. Sjóðurinn er hins vegar svartsýnni nú hvað verðbólguþróun varðar enda hefur krónan verið öllu veikari á árinu en sjóðurinn áætlaði í spá sinni í upphafi árs. Spáir sjóðurinn því nú að verðbólgan í ár verði 11,7% samanborið við 10,6% í spá þeirra í apríl.
Spá meiri samdrætti á næsta ári
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því nú, að samdrátturinn í íslenskum þjóðarbúskap verði 2% á næsta ári en í aprílspánni reiknaði sjóðurinn með því að hér yrði 0,2% samdráttur á næsta ári. Telur sjóðurinn því að atvinnuleysið aukist allnokkuð fram á næsta ár og verði þá 10,5% að jafnaði, en í aprílspánni var gert ráð fyrir að það myndi draga úr atvinnuleysinu á milli þessara tveggja ára og að það yrði 9,3% á næsta ári. Reiknar sjóðurinn með því að verðbólgan muni hjaðna hratt á næstunni og verði að meðaltali 4,4% á næsta ári," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Fjármálaráðuneytið birtir sína spá í dag
Fjármálaráðuneytið birtir sína þjóðhagsspá fyrir Ísland í dag. Reikna má með því að viðlíka breytingar verði í spá ráðuneytisins og nú má greina í spá AGS, að því er fram kemur í Morgunkorni.