„Það er tímabært að hreinsa til í bönkunum," sagði Marek Belka, yfirmaður Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á fundi í Istanbul í morgun. Hann sagði að bankarnir yrðu að gangast undir stöðugleikapróf og endurfjármögnun og styrkja þá starfsemi sem þætti lífvænleg en leggja aðra af.
Mikil fundahöld eru í Istanbul í tengslum við ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem þar fer fram í næstu viku. Meðal annars munu fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar svonefndra G7 ríkja eiga þar fund um helgina.
Svíþjóð, sem fer með forsæti Evrópusambandsins um þessar mundir, sagði í vikunni að stöðugleikapróf sem 22 evrópskir stórbankar gengust undir sýndu að þeir væru nægilega vel fjármagnaðir þrátt fyrir að útlánatöp á árunum 2009 og 2010 væru áætluð um 400 milljarðar evra.
Belka sagði, að stöðugleikapróf væru góð til síns brúks, „en það þarf núna að grípa til aðgerða," sagði hann.