Ný rannsókn á vegum bandarískrar stofnunar leiðir í ljós, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett flestum þeim ríkjum, sem hann hefur komið til aðstoðar vegna yfirstandandi fjármálakreppu, svo ströng skilyrði að hætta er á að það auki enn á samdráttinn í viðkomandi löndum.
Um er að ræða skýrslu á vegum Centre for Economic and Policy Research (CEPR) í Washington. Þar kemur fram að sjóðurinn hafi sett skilyrði, sem gætu aukið niðursveifluna, gagnvart 31 landi af 41 sem hafa fengið aðstoð sjóðsins á síðustu misserum, þar á meðal Íslandi.
Fjallað er um þetta í breska blaðinu Daily Telegraph í dag og segir blaðið að þarna endurómi ásakanir í garð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í svonefndri Asíukreppu þegar sjóðurinn var talinn hafa sett óþarflega ströng skilyrði fyrir lánveitingum.
Að sögn Telegraph segir í skýrslunni, að skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú snúi annaðhvort að ríkisfjármálum, svo sem að skera niður opinberútgjöld og hækka skatta, eða að stjórn peningamála, svo sem að hækka stýrivexti. Í 15 tilfellum hafi hins vegar verið hert bæði á ríkisfjármálum og peningamálum en ætla megi að slíkt auki á niðursveifluna.
Blaðið segir, að þessi niðurstaða muni væntanlega koma á óvart því í upphafi fjármálakreppunnar hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið gagnrýndur fyrir að lána fé án þess að setja nægilega ströng skilyrði.
Sjóðurinn hefur gert formlegt samkomulag um efnahagsáætlun við 15 ríki frá því fjármálakreppan hófst fyrir ári, þar á meðal Ísland, Pakistan og Úkraínu. Þá hefur sjóðurinn veitt tugum annarra ríkja lánafyrirgreiðslu. Skilmálar lánanna eru sniðnir að hverju ríki fyrir sig og er ætlað að tryggja að þau geti endurgreitt lánið.
En í skýrslu CEPR eru leidd að því rök, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bæði vanmetið niðursveifluna í löndunum og jafnframt sett óviðeigandi skilyrði fyrir lánunum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt, að of ströng skilyrði hafi verið sett vegna lánveitinga til Asíulanda á tíunda áratug síðustu aldar og einnig í Suður-Ameríku en lánaáætlunum hafi verið breytt í ljósi þeirrar reynslu.
Í skýrslu CEPR segir hins vegar, að ákvörðun sjóðsins um að styðja óbreytt gengi gjaldmiðils Lettlands minni á svipaðar aðgerðir í Argentínu á árunum 1998 til 2002 þar milljarða dala lánsfé hafi verið varið til að halda uppi föstu og allt of háu gengi þar til það hrundi á endanum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur brugðist hart við skýrslunni og segir að niðurstöður hennar séu villandi og byggi á rangri greiningu og oft röngum upplýsingum.