Tveir vildu lækka vexti

Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi.
Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi. mbl.is/Kristinn

Tveir fulltrúar af fimm í peningastefnunefnd Seðlabankans vildu lækka stýrivexti bankans um hálfa prósentu þegar tekin var ákvörðun um vexti bankans í september. Þrír vildu að stýrivextir yrðu óbreyttir, eða 12%.

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar, sem var birt síðdegis, að allir nefndarmenn voru hlynntir þeim tillögum Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, að lækka daglánavexti í 14,5% og að efna til útboðs innstæðubréfa til 28 daga, með 9,5% lágmarksvöxtum og 10% hámarksvöxtum. Tveir nefndarmenn lögðu til að veðlánavextir yrðu lækkaðir úr 12% í 11,5% og innlánsvextir úr 9,5% í 9,25%. Þrír nefndarmenn voru á móti þessari tillögu og kusu að veðlánavextir og innlánsvextir yrðu óbreyttir.

Þeir sem studdu tillöguna um að lækka innlánsvexti bentu á að það mundi liðka fyrir uppboðinu á innstæðubréfum og þau kynnu því að taka til sín meira lausafé af markaðnum. Bent var á að með því að lækka veðlánavextina yrðu undirstrikuð þau skilaboð að hinir virku stýrivextir væru nú talsvert undir 12% og að öðru óbreyttu væri ekki útlit fyrir að þörf væri á að virkir stýrivextir hækkuðu á ný á næstunni.

Einnig var bent á að jafnvel þótt taka bæri tillit til verðbólguhorfa væri hættan af annarrar umferðar áhrifum af lágu gengi krónunnar mjög takmörkuð vegna slakans í hagkerfinu og að áfram væru horfur á að verulega drægi úr verðbólgu á næstu misserum.

Meirihluti nefndarmanna vildi hins vegar halda veðlánavöxtum og innlánsvöxtum óbreyttum. Þeir vildu fara varlega og töldu nauðsynlegt að fleiri úrlausnarefni yrðu leidd til lykta áður en þessir vextir yrðu lækkaðir. Þeir bentu á að núverandi markmið peningastefnunnar væri gengisstöðugleiki og að gengisþróunin undanfarið væri ekki nægilega hagstæð til að rökstyðja vaxtalækkun. Að auki fannst þeim mikilvægt að sýna staðfestu í því að styðja við gengið.

Fundargerð peningastefnunefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK