Skrifað hefur verið undir samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda, skilanefndar Landsbanka Íslands og Nýja Landsbankans (NBI) um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans. Skilanefndin segir að gera megi ráð fyrir að tæplega 90% fáist upp í forgangskröfur í bú gamla Landsbankans, sem eru aðallega vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að NBI gefi út skuldabréf til gamla bankans að fjárhæð 260 milljarðar króna til 10 ára. Skuldabréfið er gengistryggt og tryggir Landsbankanum þannig erlenda fjármögnun. Þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 milljarðar króna sem svarar til um 20% heildarhlutafjár NBI.
Skilanefnd Landsbankans segir, að með samningnum sé umtalsverðri óvissu eytt og grunnur lagður að markvissari vinnu bankans í þeim tilgangi að hámarka verðmæti eigna hans kröfuhöfum til hagsbóta. Þá megi ætla, að endurheimtuhlutfall hækki nokkuð miðað við það sem áður hefur verið gert ráð fyrir. Miðað við samninginn og það eignamat sem stuðst sé við megi gera ráð fyrir að tæplega 90% fáist upp í forgangskröfur að óbreyttu. Áætlað virði eigna sé þó háð óvissu, m.a.vegna þróunar í efnahagsmálum bæði innanlands og utan sem getur haft áhrif á framtíðarvirði undirliggjandi eigna.Að sögn fjármálaráðuneytisins samsvarar heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna mati NBI á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar. Fari svo að verðmæti yfirfærðra eigna reynist meira en mat NBI gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til gamla bankans sem gæti numið um 90 milljörðum króna en þess í stað fengi ríkissjóður áðurnefnd hlutabréf að fjárhæð 28 milljarðar til sín að miklu leyti. Lokamat verður lagt á eignirnar í árslok 2012.
Með samkomulaginu verður eignarhlutur ríkissjóðs í NBI ekki lægri en 80% en gæti orðið töluvert hærri ef efnahagsþróun reynist hagstæð fram til loka ársins 2012 sem yrði til þess að nýi bankinn gæfi út viðbótarskuldabréf.
Áætlanir gera ráð fyrir að hlutafé NBI verði um 155 milljarðar króna og mun ríkissjóður leggja fram 127 milljarða króna í formi ríkisskuldabréfa. Áður var áætlað að ríkissjóður þyrfti að leggja fram 140 milljarða króna í hlutafé og verður fjárþörf ríkisins vegna endurreisnar Landsbankans því heldur minni en áætlað var. Um er að ræða bráðabirgðatölur en Fjármálaeftirlitið á eftir að leggja mat sitt á eiginfjárþörfina á grundvelli uppfærðra viðskiptaáætlana bankans.