Stjórn Geysis Green Energy (GGE) fór fram á það við stjórnendur félagsins að þeir innheimtu þær 15 milljónir dala, um 1,9 milljarða króna, sem bandaríska fyrirtækið Wolfensohn & Co. hafði skuldbundið sig til að greiða fyrir 3,9% hlut í félaginu. Eftir þessum tilmælum hafi hins vegar ekki verið farið.
Aðspurður staðfestir Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarmaður í GGE, þessa atburðarás. „Meirihluti stjórnarinnar ákvað að setja í gang innheimtuaðgerðir, en núverandi forstjóri og stjórnarformaður vildu ekki fara í þær. Forstjórinn fór ekki í þær aðgerðir sem stjórnin fól honum að framkvæma.“ Forstjóri GGE er Ásgeir Margeirsson og stjórnarformaður félagsins Eyjólfur Árni Rafnsson, en hann situr þar fyrir hönd VGK Invest.
Wolfensohn hætti hins vegar að greiða framlag sitt til GGE í kjölfar bankahrunsins og bar fyrir sig óvenjulegar aðstæður. Stjórn GGE sætti sig ekki við þessar niðurstöður og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lét hún vinna fyrir sig lögfræðiálit sem sagði að góðar líkur væru á innheimtu fjárins ef farið yrði í lögfræðilegar aðgerðir. Þorsteinn segir að ekki hafi verið um hlutafjárloforð að ræða, heldur samning um að auka hlutafé. Wolfensohn hafi því einfaldlega skuldað kaupverðið.
Ásgeir Margeirsson hafnar því að málið hafi ekki verið sett í ferli. Þetta mál var rætt í stjórninni og Wolfensohn var sent bréf. Þeir hafa svarað því bréfi og menn eru einfaldlega ekki sammála um túlkun samningsins.