Spænskir bankar fara í felur með það hversu alvarlegt tap þeirra raunverulega er og erfiðleikarnir í efnahag Spánar hafa enn ekki náð hámarki sínu, samkvæmt aðvörunum alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's í dag.
„Moody's hefur enn áhyggjur af því að margir virðast forðast að viðurkenna raunverulega eignarýrnun í sínum bókum,“ segir í skýrslu fyrirtækisins um bankageirann á Spáni í dag. „Rýrnun á virði eigna spænsku bankanna hefur enn ekki náð botninum og Moody's spáir því að töluverður fjöldi banka muni tilkynna tap á komandi ársfjórðungum.“
Í skýrslunni er hinsvegar líka tekið fram að aðgerðir frá spænsku ríkisstjórninni myndu hjálpa við að koma í veg fyrir fall bankanna og að lán frá yfirvöldum til bankanna myndi tryggja lausafjárstöðu bankanna.