Afkoma bandaríska örgjörvaframleiðandans Intel var betri á þriðja ársfjórðungi en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það hefur orðið til þess að auka á væntingar fyrirtækisins fyrir næsta fjórðung.
Hreinar tekjur námu 1,9 milljarði dollara, sem er 0,1 milljarði minna en á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur lækkuðu einnig um 8% í 9,4 milljarða dollara, en greiningarfyrirtæki höfðu spáð því að þær myndu lækka í 9,1 milljarð.
Paul Otellini, forstjóri Intel, sagði nýlega, að einkatölvuframleiðsla væri að rétta úr kútnum eftir kreppu. Fyrirtækið gerir nú ráð fyrir að velta á yfirstandandi fjórðungi verði 10,1 milljarður dollara vegna aukinnar eftirspurnar eftir einkatölvum.