Breska stofnunin Serious Organiesed Crime Agency, (Soca), sem venjulega rannsakra alvarlega skipulagða glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnasmygl eða peningaþvætti, er að rannsaka gerðir fyrrum stjórnenda bresku íþróttaverslunarkeðjunnar JJB Sports.
Í september var upplýst, að breska samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, (SFO) væru að rannsaka hvort fyrirtækin JJB og Sports Direct hefðu átt með sér ólöglegt verðsamráð.
Svo virðist sem rannsókn bresku rannsóknarstofnananna beinist einkum að því tímabili sem Chris Ronnie stýrði JJB eða frá miðju ári 2007 til mars á þessu ári. Exista var, ásamt Ronnie, stærsti hluthafi félagsins með rúm 27%. Kaupþing í Bretlandi gerði hins vegar veðkall í bréfin og tók þau yfir um miðjan janúar. Þetta kom í ljós í mars sl. og þá var Ronnie rekinn frá JJB.
Upplýst var um rannsókn Soca í gær þegar JJB birti útboðslýsingu fyrir 100 milljóna punda hlutafjárútboð. Þar kemur fram, að fyrirtækið sé að aðstoða ýmsar stofnanir, þar á meðal Soca og SFO, við rannsókn á störfum tiltekinna fyrrum stjórnenda.
Þá kom fram, að verið sé að rannsaka færslu hlutabréfanna til skilanefndar Kaupþings, hugsanlega ranga kostnaðargreiðslureikninga, misnotkun á kreditkortum fyrirtækisins, hugsanlegan þjófnað á eignum JJB og upplýsingar félagsins til hlutabréfamarkaða í tengslum við birtingu milliuppgjörs í september 2008.
Viðskiptablaðið Financial Times segir, að það hafi komið stærstu hluthöfum JJB í opna skjöldu, að Soca skuli vera að rannsaka mál þar. Hins vegar muni þeir styðja hlutafjárútboðið áfram þar sem rannsóknin beinist að fyrrum yfirmönnum félagsins en ekki að félaginu sjálfu.