Starfsmenn fjárfestingabanka eiga von á því að fá greidda háa bónusa í ár á sama tíma og væntingar aukast á fjármálamarkaði. Á vef breska blaðsins Times kemur fram að einungis einu ári frá því að efnahagur heimsins nánast hrundi með þeim afleiðingum að skattgreiðendur þurftu að bjarga bönkunum þá er útlit fyrir að fjárfestingabankarnir skili gríðarlega góðri afkomu.
Efnahagslífið sé á réttri leið víða. Í Bretlandi hefur hægt á fjölgun atvinnulausra og færri ungmenni eru án atvinnu en fyrr á árinu. Frá Kína berist jákvæðar fréttir og verð á hráolíu hefur ekki verið jafn hátt í langan tíma.
Laun og bónusar ríflega tvöfaldast milli ára
Samkævmt Times er gert ráð fyrir því að bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs muni kynna mikla aukningu hagnaðar á þriðja ársfjóðrungi. Sérfræðingur sem Times ræddi við sagðist gera ráð fyrir því að starfsmenn bankans í Lundúnum, en á starfsmenn bankans eru á sjötta þúsund talsins í Bretlandi, muni að meðaltali fá um 748 þúsund Bandaríkjadali, 92,7 milljónir króna í bónusgreiðslur og laun í ár, sem er 13% hærra en viðkomandi fékk greitt árið 2007 og ríflega tvöföldun frá síðasta ári.