Þrjátíu og sjö milljarðar króna, sem ríkið hafði lagt Íslandsbanka til sem hlutafé, mun ganga til baka til ríkisins eftir að skilanefnd Glitnis ákvað í dag að eignast 95 prósenta hlut í Íslandsbanka.
Hefur þessi ákvörðun áhrif á efnahag bankans, sem nú er metinn á um 630 milljarða króna. Mun efnahagsreikningurinn minnka um 40 milljarða, en unnið er nú að endurskoðuðum uppgjörum. Eigið fé bankans verður 65 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 12%.
Reksturinn góður
Í dag er ár liðið frá því að nafni Nýja Glitnis var breytt í Íslandsbanka. Sagði Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, að mikil vinna hafi undanfarið verið unnin við að kanna hag Íslandsbanka og telur skilanefndin hann góðan. Rekstur hans sé góður og eignir varlega metnar. “Af þessum sökum hefur skilanefndin óskað eftir því fyrir hönd kröfuhafa að fá þennan hlut í Íslandsbanka keyptan.”
Sagði Árni jafnframt að þegar fram líða stundir muni skilanefndin selja hlut sinn í bankanum eins og aðrar eignir hennar. Það myndi hins vegar ekki gerast fyrr en eftir nokkur ár.
Steingrímur J. Sigfússon, forsætisráðherra, segist sannfærður um að andrúmsloftið erlendis sé að snúast Íslandi í hag og þessi ákvörðun skilanefndar Glitnis sé hluti af því. „Ég er mjög sáttur og ánægður með þessa ákvörðun skilanefndarinnar og fagna því að skilanefndin og kröfuhafar meti fjárfestingu í Íslandsbanka vænlega.” Sagði hann þetta hagstæða niðurstaða fyrir ríkið því þá gangi til baka töluvert fé, sem annars hefði legið í bankanum. „Bankinn leggur af stað mjög vel fjármagnaður og ættu allir aðilar að geta unað vel við þessa niðurstöðu.”
Enn óvissa með kröfuhafa
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði þetta merk tímamót. „Undanfarið ár hefur töluverð óvissa verið með stöðu bankans og framtíð. Það að Glitnir taki þessa ákvörðun í dag, sem byggð er á mjög vel unninni áreiðanleikakönnun, er mjög ánægjulegt.” Sagðist hún halda að langflestir starfsmenn bankans verði mjög ánægðir. „Forverar bankans hafa alltaf verið í einkaeigu og við kunnum að vinna við þær aðstæður. Hins vegar hefur samstarfið við ríkið undanfarið ár gengið mjög vel. Við lítum svo á að þetta sé mikið framfaraskref fyrir bankann.”
Enn er ekki komið á hreint hverjir kröfuhafar Glitnis eru, en kröfulýsingarfrestur rennur út í lok nóvember. Skilanefndin hefur hins vegar unnið með svokölluðu kröfuhafaráði, sem í sitja aðilar sem eiga um 30-40% allra krafna í bankann, að sögn Árna.