Kröfur marga lífeyrissjóða á hendur Exista eru komnar í ferli til gjaldfellingar, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Stór skuldabréfaflokkur félagsins var á gjalddaga í gær án þess að greitt væri af honum. Lífeyrissjóðirnir eiga mikið af skuldabréfum útgefnum af Exista.
Stærstu innlendu kröfuhafar Exista hafa verið að reyna að taka yfir félagið frá því í maí og vilja setja stjórnendur þess til hliðar. Þeir eru, auk lífeyrissjóða, skilanefndir gömlu bankanna og Nýja Kaupþing. Skilanefnd Glitnis hefur þegar höfðað mál vegna vangoldinna krafna. Heimildir Morgunblaðsins herma að kröfuhafarnir líti svo á að félagið eigi einungis tvo kosti: greiðslustöðvun eða gjaldþrot.