Eric Schmidt, forstjóri netleitarinnar Google, lýsti því yfir í kvöld að það versta í fjármálakreppunni væri yfirstaðið. Tekjur Google námu 5,94 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi og jukust um 7% miðað við sama tímabil í fyrra.
Schmidt sagði, að þótt enn ríkti mikil óvissa um hraða efnahagsbatans teldu stjórnendur Google að það versta væri að baki.
Hagnaður Google á tímabilinu nam 1,64 milljörðum dala, eða 5,13 dölum á hlut, en var 1,29 milljarðar dala, eða 4,06 dalir á hlut, á sama tímabili í fyrra. Fyrirtækið hefur ávallt skilað hagnaði frá því það var skráð í kauphöllina á Wall Street.
Fyrirtækið comScore áætlaði í dag, að hlutdeild Google á netleitarmarkaði hefði aukist úr 64,6% í ágúst í 64,9% nú.