Þrotabú Samsonar hefur stefnt Nýja Kaupþingi banka þar sem bankinn hélt eftir innstæðu upp á 520 milljónir króna vegna skuldar Samsonar við bankann. Um er að ræða útistandandi kröfu vegna láns sem Samson fékk hjá Búnaðarbankanum til að fjármagna þriðjung kaupverðs Landsbankans vorið 2003, eftir einkavæðingu. Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Að sögn Helga Birgissonar, skiptastjóra þrotabús Samsonar, snýst ágreiningur við Nýja Kaupþing um innstæður sem þrotabúið átti í bankanum. Nýi Kaupþing banki taldi sig geta haldið eftir innstæðunni til skuldajafnaðar vegna kröfu sinnar á hendurSamson ehf. Bankinn notaði innstæður á reikningum þrotabúsins til að lækka skuld Samsonar, sem nemur í dag um 5 milljörðum króna.
Þrotabú félaga sem eru gjaldþrota taka við öllum réttindum og skyldum þeirra og því er þrotabúið að höfða málið, en skiptastjóri þess á að gæta hagsmuna allra kröfuhafa Samsonar.
Lán vegna einkavæðingar ógreitt
Lánið sem Samson fékk til að fjármagna þriðjung kaupverðs Landsbankans hefur ekki verið greitt, en það fluttist til Kaupþings eftir sameiningu bankanna tveggja og loks til Nýja Kaupþings eftir bankahrunið.Eins og Morgunblaðið hefur greint frá var það Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sem óskaði eftir lánveitingu hjá Búnaðarbankanum til Samsonar, eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar í mars 2003. M.ö.o var bankastjóri banka sem Samson var að eignast að hlutast til um lán svo félagið keypt bankann.
Lánið til Samsonar var formlega afgreitt hinn 25. apríl 2003 en í nokkrar vikur þar á undan hafði verið unnið að lánasamningnum. Elín Sigfúsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Búnaðarbankans, undirbjó lánveitinguna, en hún var sem kunnugt er einn fjölmargra starfsmanna Búnaðarbankans sem ráðnir voru yfir til Landsbankans í apríl 2003. Endanleg ákvörðun um að heimila lánveitinguna tók síðan Sólon Sigurðsson, þáverandi bankastjóri Búnaðarbankans.