Rio Tinto Alcan, sem meðal annars á og rekur álverið í Straumsvík, hefur lagt til hliðar áform um að byggja álver í Suður-Afríku fyrir 2,7 milljarða Bandaríkjadala, 333 milljarða króna, vegna breytinga á raforkusamningi, að sögn talsmanns fyrirtækisins í Suður-Afríku. Eiga stjórnvöld í S-Afríku og raforkufyrirtækið Eskom að hafa sagt sig frá raforkusamningnum fyrir álverið sem átti að geta framleitt 720 þúsund tonn á ári.
Jean Chawapiwa-Pama, talsmaður Rio Tinto Alcan, segir að miklar breytingar hafi verið gerðar á því magni raforkunnar og verði sem greiða átti fyrir hana og mun fyrirtækið hefja nýjar viðræður um verkefnið í ljósi þessara breytinga.
Morgunblaðið greinir frá því í dag að Rio Tinto Alcan hafi samþykkt í lok september að fjármagna fyrsta áfanga stækkunarinnar í Straumsvík, eða um einn þriðja hluta verkefnisins, upp á alls 13 milljarða kr.
Daginn eftir birtist hugmyndin um orku- og kolefnisskatta í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra. Þá ákváðu eigendur álversins að halda að sér höndunum og hafast ekkert frekar að.
Skattahugmyndirnar setja stækkunina í Straumsvík því í óvissu þar til í ljós kemur hvort stjórnvöld ætla að halda skattheimtunni til streitu. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi álversins staðfesti þetta í samtali við blaðið. Að sögn hans voru menn tilbúnir að hefja framkvæmdir við stækkunina um næstu mánaðamót.