Skuldir og skuldbindingar Reykjavíkurborgar og fyrirtækja í meirihlutaeigu hennar hafa aukist um 27,5 milljarða króna frá áramótum. Í lok árs 2008 námu skuldirnar 272,2 milljörðum króna en voru 299,7 milljarðar króna í lok júní síðastliðins.
Þetta kemur fram í óendurskoðuðum árshlutareikningi Reykjavíkurborgar sem lagður var fram í borgarráði í gær.
Eignir borgarinnar uxu um 14,3 milljarða króna á tímabilinu. Heildarvirði þeirra er 402,9 milljarðar króna samkvæmt reikningnum. Þar sem skuldir jukust töluvert meira en eignir dróst eigið fé Reykjavíkurborgar saman um 13,2 milljarða króna.