Breskur ríkisbanki greiðir háa bónusa

Breski bankinn Royal Bank of Scotland, sem að stærstum hluta er í eigu breska ríkisins, ætlar að greiða háa bónusa til yfirmanna fjárfestingabankastarfsemi bankans á þessu ári. Blaðið Sunday Times segir, að 20 valdamestu mennirnir innan bankans fái bónusa sem nemi frá 1 til 5 milljónum punda en að jafnaði fái starfsmenn um 240 þúsund pund. 

Alls ætlar bankinn að greiða 4 milljarða punda í bónusa til starfsmanna á þessu ári. Er það hærri upphæð en greidd var árið 2007 þegar launagreiðslur bankans náðu hámarki en á síðasta ári varð breska ríkið að bjarga bankanum frá hruni og leggja honum til tugi milljarða punda. Ríkið á nú 70% í bankanum. 

Sunday Times segir, að þetta sé til marks um að bónusamenningin hafi aftur haldið innreið sína í The City, fjármálahverfi Lundúna. Bankar, sem voru að hruni komnir á síðasta ári, græði nú á tá og fingri í viðskiptum með skuldabréf og gjaldeyri þar sem tækifæri hafi myndast vegna óstöðugleika í alþjóðlega fjármálakerfinu.

Blaðið segir, að bankinn muni berjast hart fyrir því að fá að greiða þessa bónusa því ella muni aðrir bankar og fjármálafyrirtæki lokka bestu starfsmennina til sín með betri launatilboðum.

Blaðið Sunday Telegraph segir, að bresk stjórnvöld séu að undirbúa að leggja háa skatta á breska banka svo breska ríkið endurheimti þá fjármuni, sem varið var til að bjarga bönkunum frá falli á síðasta ári vegna fjármálakreppunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK