Allt hlutafé í Atorku Group verður fært niður og kröfuhafar félagsins munu eignast það að fullu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Stjórn Atorku hefur boðað til hluthafafundar næsta miðvikudag, 21. október, þar sem drög að nauðasamningi verða kynnt hluthöfum.
Þar verður einnig tilkynnt hver afstaða kröfuhafa félagsins til samninganna er. Á meðal stærstu kröfuhafa Atorku eru Nýi Landsbankinn (NBI) og skilanefnd Glitnis.
Atorka hefur verið í fjárhagslegri endurskipulagningu um margra mánaða skeið í samvinnu við kröfuhafa sína. KPMG í London var fengið til að vinna verðmat á Promens, sem er stærsta einstaka fjárfesting Atorku. Morgunblaðið greindi frá því í maí að eignarhlutur Atorku í fyrirtækinu væri nánast verðlaus samkvæmt mati KPMG.
Í tilkynningu frá Atorku á þeim tíma kom fram að mat KPMG væri „frábrugðið“ mati stjórnar og stjórnenda Atorku á virði Promens. Því leitaði stjórn Atorku til PriceWaterhouseCoopers í Danmörku til að gera verðmat á öllum eignum Atorku. Auk Promens er ein helsta fjárfesting Atorku 41% hlutur í Geysi Green Energy (GGE). Kröfuhafar Atorku hafa þegar sest í stjórn GGE í krafti þess eignarhlutar. Magnús Jónsson, sem hefur verið forstjóri Atorku, lét af störfum hjá félaginu í lok september og enginn var ráðinn í stað hans.