Auknar líkur á breskri rannsókn

Líkur hafa aukist á því að breska efnahagsbrotaskrifstofan, Serious Fraud Office, hefji formlega sakamálarannsókn á starfsemi Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi. Breska blaðið Daily Telegraph segir að starfsmenn skrifstofunnar telji að bankarnir tveir kunni í nokkrum tilfellum að hafa gerst brotlegir við bresk lög. 

Að sögn blaðsins hefur Serious Fraud Office fundið einn þátt í starfsemi Landsbankans í Bretlandi og þrjá þætti í starfsemi Kaupþings, þar sem hugsanlega hafi verið framin lögbrot. 

Telegraph segir, að til þessa hafi rannsókn efnahagsbrotaskrifstofunnar á starfsemi íslensku bankanna beinst að Kaupþingi en nú hafi Landsbankinn bæst við. 

Blaðið segir, að breskir og íslenskir rannsakendur hafi setið á mörgum fundum í síðustu viku og skipst á upplýsingum um starfsemi bankanna í Lundúnum. Þrír starfsmenn bresku skrifstofunnar komu hingað til lands í síðustu viku í kjölfar fundar, sem Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, átti með Richard Alderman, forstjóra Serious Fraud Office, í Lundúnum.

Bresk stjórnvöld verða bráðlega að taka ákvörðun um, hvort nægar vísbendingar séu fyrir hendi til að hefja formlega rannsókn á íslensku bönkunum en líkur á því hafa aukist, að sögn Daily Telegraph. Hefur blaðið þetta eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem þekkir til málsins.

Blaðið segir, að um þriðjungur þeirra gagna, sem embætti sérstaks saksóknara hefur safnað, tengist starfsemi bankanna í Bretlandi. Serious Fraud Office hefur einnig verið að safna gögnum um íslenska bankakerfið og starfsemina á Bretlandseyjum, bæði varðandi fjárfesta og lántakendur. Áhersla á þá gagnaöflun hafi aukist eftir að lánabók Kaupþings birtist á vefnum Wikileaks í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka