Auknar líkur á vaxtalækkun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Golli

Greining Íslandsbanka segir auknar líkur á því að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti nú eftir að Icesave-samkomulagið virðist í höfn. Vísar deildin þar til greinargerðar Seðlabankans um Icesave þar sem fram kemur að verulegar tafir á því að Icesave-samkomulagið náist gætu leitt til þessa að ógerlegt verði fyrir bankann að halda vaxtalækkunarferlinu áfram og í versta falli að hann þurfi að hækka vexti til að verja gengi krónunnar.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að fjölmargir þættir í uppbyggingu efnahagslífisins hvíla á samþykkt Icesave samkomulagsins. Má þar nefna greiðslu á öðrum hluta láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og greiðslu lána frá hinum Norðurlöndunum ásamt láni frá Póllandi. Einnig hvílir fyrsti áfangi í afnámi gjaldeyrishafta á þessari samþykkt sem og lánshæfi íslenskra ríkisins.

„Verði það sem líkur virðast vera á nú, að frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave verði samþykkt af Alþingi, mun yfirstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taka fyrir fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Væntanlega mun sjóðurinn þá komast að þeirri niðurstöðu að forsendur séu fyrir því að greiða út annan hluta lánsins til Íslands, samtals 155 milljónir dollara. Fyrsti hluti lánsins var 827 milljónir dollara sem greiddur var út í nóvember á síðasta ári og afgangurinn átti að koma í átta jöfnum greiðslum, 155 milljónir dollara hver.

Fyrsta endurskoðunin og annar hluti lánsins hefur dregist umtalsvert en upprunalega var hún á dagskrá í febrúar á þessu ári. Dráttur í endurskipulagningu bankanna, Icesave deilan, Alþingiskosningar og breytingar á ríkisstjórn, tafir á framlagningu langtímaáætlunar í ríkisfjármálum o.fl. mál hafa valdið töfum. Með Icesave samningnum og samþykkt ríkisábyrgðar vegna hans á Alþingi eru öll mál í höfn fyrir endurskoðunina," að því er segir í Morgunkorni.

Afnám gjaldeyrishafta í augsýn

Fyrirhugað er að nýta lán AGS til að styrkja gjaldeyrisfroða Seðlabankans. Til viðbótar við lán AGS koma lán frá hinum Norðurlöndunum og Póllandi. Lán þessara aðila eru háð samþykkt AGS á öðrum hluta láns síns til Íslands. Þannig hvíla þau lán einnig á lausn Icesave-deilunnar og munu þessi lönd væntanlega greiða út u.þ.b. 470 milljónir evra þegar endurskoðun AGS er í höfn.

„Með samþykkt Icesave samkomulagsins er líklegt að ráðist verði í fyrsta áfanga í afnámi gjaldeyrishafta, en í þeim áfanga á að létta höftum af innstreymi erlendrar fjárfestingar. Fyrsta skrefið í þeim áfanga sem er áformað 1. nóvember n.k. og verða þá afnumin höft á nýfjárfestingar sem fela í sér innstreymi erlends gjaldeyris. Þessar eignir í íslenskum krónum verða fyllilega framseljanlegar og má skipta í erlendan gjaldeyri. Þess er vænst að fyrsti áfangi í afnámi gjaldeyrishaftanna muni hafa jákvæð eða takmörkuð áhrif á gjaldeyrisforðann og krónuna" samkvæmt Morgunkorni.

Minnkar líkur á lækkun lánshæfiseinkunnar

Líkt og segir í nýlegri greinargerð Seðlabankans um afleiðingar þess að ekki náist sátt í Icesave-deilunni í bráð og að endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda tefjist vegna þess er að líklega mun lánshæfismat Íslands verða lækkað ef slík staða kemur upp.

Eitt stóru matsfyrirtækjanna, Fitch Ratings, tekur raunar einnig fram í mánaðargamalli skýrslu að þessi geti orðið raunin. Á það er bent í greinargerðinni að ef lánshæfismatið fellur niður fyrir fjárfestingarflokk (e. investment grade) kunna sumir stofnanafjárfestar að vera tilneyddir að selja eignir sínar um leið og færi gefst, vegna þess að þeim er ekki heimilt að eiga fjáreignir sem ekki fylla fjárfestingarflokk. Samþykkt Icesave nú kann þannig að skapa betri forsendur fyrir stöðugleika krónunnar og sérstaklega þegar gjaldeyrishöft verða afnumin. Samþykktin kann einnig að tryggja betur endurfjármögnun íslenskra fyrirtækja og stofnana og í leiðinni aðgengi ríkisins að erlendum lánamörkuðum, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK