Bókfært eigið fé Exista nam um síðustu áramót 200 milljónum evra, 34 milljörðum króna, sem er lækkun umrúm 90% á milli ára. Heildareignir námu 2,3 milljörðum evra, 391 milljarður króna, lækkuðu um rúm 70% á milli ára. Þetta kemur fram í uppgjöri Exista fyrir síðasta ár sem birt var í dag. Tap Exista nam 1,6 milljörðum evra, 206 milljörðum króna. Hagnaður Exista eftir skatta nam 573,9 milljónum evra árið 2007.
Tap Exista er væntanlega það mesta sem íslenskt félag hefur skilað hingað til.
Heildarskuldir lækkuðu um 3,5 milljarða evra (602 milljarðar króna), eða 63%.Í tilkynningu kemur fram að Exista á í viðræðum við helstu lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu og framtíð félagsins. Exista bíður niðurstöðu í dómsmálum um uppgjör gjaldmiðlasaminga við Kaupþing
banka og Glitni banka. Niðurstöður þeirra mála munu skipta verulegu máli varðandi afkomu félagsins og eigið fé.
Framhaldsaðalfundur Exista var haldinn í morgun. Ársreikningur félagsins var lagður fyrir fundinn til staðfestingar sem og tillaga um hvernig farið skyldi með tap félagsins fyrir síðastliðið reikningsár. Fundurinn staðfesti ársreikning ársins 2008 og samþykkti samhljóða tillögu félagsstjórnar um að greiða ekki út arð.
Mun verri staða ef miðað væri við gengi Seðlabanka Íslands en ekki Seðlabanka Evrópu
„Ársuppgjör Exista hf. fyrir árið 2008 er gert í skugga fordæmalausra aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði eftir fall íslenska bankakerfisins í október 2008. Staða og horfur Exista hf. eru því háðar mikilli óvissu. Hrun bankakerfisins hafði mikil áhrif á stöðu Exista hf. þar sem hæst ber fall Kaupþings banka hf. en Exista hf. var stærsti hluthafi bankans.
Stærsti einstaki óvissuþáttur í uppgjöri Exista hf. er uppgjör gjaldmiðlasamninga en við fall bankanna varð ljóst að þeir gátu ekki efnt skyldur sínar um að afhenda þann gjaldeyri sem um hafði verið samið.
Exista hf. hafði greitt bönkunum háar fjárhæðir í formi þóknana og vaxta til að tryggja sér gjaldeyri þannig að félagið gæti staðið við erlendar skuldbindingar sínar. Verðmæti þessara krafna Exista hf. á hendur bönkunum er háð því á hvaða gengi uppgjör fer fram þar en ljóst er að bankarnir munu ekki geta afhent þann gjaldeyri sem um hafði verið samið.
Exista hf. byggir í reikningum sínum á markaðsvirði íslensku krónunnar samkvæmt gögnum frá Evrópska Seðlabankanum þar sem ljóst er að markaðsbrestur olli því að skráð gengi Seðlabanka Íslands endurspeglaði ekki markaðsgengi krónunnar í kjölfar falls íslensku bankanna. Eins og fram kemur í ársreikningi Exista hf. munar miklu hvort notast er við gengi Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Evrópu og er ljóst að eigið fé Exista hf. er verulega neikvætt ef uppgjör væri miðað við gengi Seðlabanka Íslands, eins og krafist hefur verið af hálfu bankanna.
Endanleg niðurstaða um verðmæti krafna Exista hf. á hendur bönkunum mun ekki fást fyrr en að undangengnum dómi. Forsendur ársreiknings um rekstrarhæfi félagsins hvíla á því að Exista hf. nái samningum við kröfuhafa félagsins um heildarendurskoðun fjárhagslegra skuldbindinga þess og að dómstólar viðurkenni kröfur Exista hf. á hendur Glitni banka hf. og Kaupþings banka hf. á grundvelli gjaldmiðlasamninga," segir í afkomutilkynningu.