Breskur dómstóll, sem í morgun komst að því að bresk stjórnvöld hefðu verið í rétti þegar þau færðu innistæður af Edge reikningum hjá Kaupthing Singer og Friedlander í október, taldi að málssókn Kaupþings hefði yfir sér blæ óraunveruleika og uppgerðar.
Breska blaðið Financial Times fjallar í kvöld um dóminn og segir, að þar sé lýst örvæntingarfullum samningaviðræðum stjórnenda Kaupþings við breska fjármálaeftirlitið dagana áður en Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands heimilaði embættismönnum að taka yfir Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings.
Kaupþing hélt því fram, að aðgerðir breskra stjórnvalda, að færa Edge innlánsreikningana til hollenska netbankans ING Direct hefðu verið ólögmætar, skaðað móðurbankann á Ísland og valdið falli hans. Bankinn sagðist hafa samið við breska fjármálaeftirlitið um að afla 1,25 milljarða punda, jafnvirði um 250 milljarða króna á núverandi gengi, en fjármálaráðuneytið breska hefði gripið til aðgerða áður en frestur rann út.
Að sögn Financial Times sýna gögn, sem lögð voru fyrir dóminn, að breska fjármálaeftirlitið hafi nokkrum sinnum sent Kaupþingi skriflegar viðvaranir og krafist tiltekinna greiðsla í ljósi þess að fjárhagsstaða bankans versnaði stöðugt.
Kaupþing gat hins vegar ekki innt þessar greiðslur af hendi þótt bankinn hefði eitt sinn lofað að senda 175 milljónir punda, jafnvirði 35 milljarða króna „á næstu klukkustund."
Loks fékk bankinn lokafrest, 12 stundir, til þess að leggja annað hvort fram gögn sem sýndu að hann hefði fengið fjárhagslegan bakhjarl eða gæti flutt nægilega mikið fé inn á reikninga Kaupthing Singer & Friedlander til að standa við skuldbindingar vegna Edge reikninganna.
Kaupþing hét því að flytja 300 milljónir punda, jafnvirði 60 milljarða króna, til breska bankans en stóð ekki við það fyrir tilsettan tíma. Þá greip fjármálaráðuneytið inn í atburðarásina til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika.
Financial Times vitnar í ummæli Richards lagalávarðar í dómnum, sem segist eiga erfitt með að sjá hvaða ákvörðun aðra fjármálaráðuneytið hefði getað tekið en að yfirtaka breska bankann og flytja innistæðurnar annað.