Skilanefnd rannsakar mörg mál

Skilanefnd Kaupþings hefur frá falli bankans rannsakað fjölda mála sem lúta að viðskiptum með hlutabréf bankans, útlán hans ofl. Hefur skilanefndin sent nokkur slíkt mál til Fjármálaeftirlitsins og embættis sérstaks saksóknara. Meðal þeirra eru kaup sjeik Mohameds Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á hlut í bankanum, en sjeikinn keypti 5% hlut þann 25. september 2008, tveimur vikum fyrir hrun.

Í ljós kom að Kaupþing hlutaðist til um kaupin með því að kaupa eigin bréf upp að lögbundnu hámarki og selja þau svo sjeiknum. Kaupþing lánaði tveimur félögum sem skráð eru á Tortola-eyju fjármagn, sem þau lánuðu svo Q Iceland Finance, félagi sjeiksins. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson hafa báðir réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á máli Al-Thanis, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu.

Skilanefndin safnaði saman öllum gögnum málsins og afhenti þau Fjármálaeftirlitinu og síðar embætti sérstaks saksóknara, eftir að það embætti tók til starfa. Samhliða hefur skilanefndin unnið að endurheimt þeirra fjármuna sem greiddir voru út í tengslum við umrædd viðskipti.

Skilanefnd Kaupþings banka hefur samkvæmt lögum það meginmarkmið að hámarka endurheimt fjármuna sem tilheyra Kaupþingi banka og kröfuhöfum hans. Vakni grunur um að refsivert athæfi hafi verið framið í aðdraganda að falli bankans í október 2008 ber skilanefndinni skylda til að vekja athygli yfirvalda á því.
 Unnið náið með erlendum sérfræðingum

Haustið 2008 réði skilanefnd Kaupþings banka, að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins, alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers (PwC) til að framkvæma ítarlega skoðun á atburðum síðustu vikna fyrir fall bankans. Skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar lá fyrir í desember 2008 og var henni skilað til Fjármálaeftirlitsins.
 
Skilanefndin réði jafnframt alþjóðlega sérfræðinga, þ.m.t. sérhæfða endurskoðendur frá endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton í London (e. forensic auditors) og lögmannsstofuna Weil, Gotshal & Manges, til að vera sér til ráðgjafar og aðstoðar við athugun og úrlausn einstakra mála. Eiga þessir aðilar það sammerkt að hafa mikla alþjóðlega reynslu af meðferð gjaldþrotamála og rannsóknum og úrvinnslu mála á því sviði, samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings. Meðal mála sem þeir hafa komið að eru mörg stærstu gjaldþrotamál sögunnar, þ.m.t. Enron, Lehman Brothers og Parmalat, auk fleiri mála. Frá hausti 2008 hafa þeir starfað náið með skilanefnd Kaupþings við athugun og úrvinnslu mála. 
 
Skilanefndarmenn segja að þeir hafi lagt sig fram um að tryggja þeim aðilum á Íslandi, sem unnið hafa að rannsókn mála í kjölfar bankahruns, þ.m.t. embætti sérstaks saksóknara, Fjármálaeftirlitinu og Rannsóknarnefnd Alþingis, greiðan aðgang að þeim gögnum Kaupþings og upplýsingum sem óskað hefur verið eftir og leitast við að auðvelda störf þeirra eftir föngum. Skilanefndin hefur jafnframt boðið þessum aðilum aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem hún hefur aflað og unnið með aðstoð erlendu ráðgjafanna. 
 
Telja FT fara með rangt mál

Í gær tapaði tapaði skilanefnd Kaupþings máli gegn breska fjármálaráðuneytinu fyrir dómi í gær en dómurinn taldi að tilfærsla innstæðna af Edge reikningum hjá Kaupthing Singer og Friedlander í október 2008 hafi verið lögmæt aðgerð að hálfu breska fjármálaráðuneytisins. Kaupþing höfðaði málið gegn ráðuneytinu þar sem bankinn taldi að ráðuneytið hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

Þann 8. október 2008 beitti breska fjármálaráðuneytið neyðarlögum í samræmi við bankalöggjöf þar í landi til að flytja innstæður af innlánsreikningum Kaupthing Edge til ING Direct í Hollandi skv. tilmælum um flutning eigna.

Í gærkvöldi var greint frá því á vef Financial Times að dómstóllinn hafi talið að málssókn Kaupþings hefði yfir sér blæ óraunveruleika og uppgerðar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is frá skilanefnd Kaupþings er þetta ekki rétt. Heldur er verið að vísa í eina tiltekna röksemdarfærslu lögmanns Kaupþings en alls ekki sé verið að fella dóm yfir málflutningi skilanefndarinnar. 

300 milljónir punda skiluðu sér ekki til Bretlands

Megintilgangurinn með málsókninni var sá að fá upp á yfirborðið þá atburði og atvik sem leiddu til þess að bresk yfirvöld gripu inn í rekstur Singer og Friedlander á sínum tíma. Því enginn hafi vitað hvað raunverulega gerðist.

Í dómnum eru rakin samskipti aðila dagana áður en bresk stjórnvöld taka þessa ákvörðun þann 8. október. Meðal annars kemur fram að breska fjármálaeftirlitið fór fram á að fluttir yrðu ákveðnir fjármunir frá Íslandi til Bretlands til að mæta því fjármagnsflæði sem var út af Edge-reikningum í Bretlandi en fjölmargir innistæðueigendur höfðu tekið innistæður sínar út úr bankanum frá því að fréttist af þeim erfiðleikum sem ríktu á Íslandi.  

Þeir peningar skiluðu sér hins vegar ekki nema að litlu leyti. Þar á meðal 300 milljón punda greiðsla sem átti að koma til Kaupþings S&F fyrir 8. október. Í kjölfarið var bankinn settur í greiðslustöðvun. Ekki kemur hins vegar fram skýring á því hvers vegna peningarnir skiluðu sér ekki.

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK