Þáttur Kristins ehf., félags í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, í viðskiptum með hlutabréf í Glitni skömmu fyrir hrun bankans var að öllu leyti eðlilegur, að sögn Sigurbjörns Magnússonar, lögmanns Kristins.
Í gær var frá því greint að embætti sérstaks saksóknara hefði til rannsóknar mál tengt þessum viðskiptum og staðfesti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, það í samtali við Morgunblaðið. Sagðist hann hins vegar ekki geta tjáð sig frekar um málið, eða hvaða aðilar væru til rannsóknar.
Föstudaginn 26. september 2008 seldi Kristinn ehf., félag í eigu Guðbjargar, 1,7 prósenta hlut í Glitni. Hlutinn hafði Kristinn eignast eftir að Guðbjörg seldi FL Group hlutabréf í Tryggingamiðstöðinni í september 2007 og fékk hluta söluverðsins í hlutabréfum í Glitni. Ákvæði í kaupsamningnum kvað á um að Kristinn gæti að ári liðnu selt bréfin og voru þau sölutryggð af Glitni.Áðurnefndur ársfrestur rann út hinn 25. september, en félagið seldi hlutinn hinn 26. sama mánaðar eins og áður segir. Sigurbjörn segir að Kristinn ehf. hafi þegar komið á framfæri upplýsingum við Fjármálaeftirlitið vegna þessara viðskipta án þess að eftirlitið hafi sett sig í frekara samband við Kristin.
„Mér er með öllu ókunnugt um hvort ætluð kæra FME til sérstaks saksóknara lúti að Kristni, en fleiri aðilar komu að þessum viðskiptum.“
Þess ber að geta að Guðbjörg Matthíasdóttir er stærsti eigandi Árvakurs, móðurfélags Morgunblaðsins, og Sigurbjörn er stjórnarformaður félagsins.