Ásakanir um peningaþvætti

Þeir sem vinna að rannsókn á hruninu á Íslandi rannsaka nú hvort ásakanir um að íslensku bankarnir hafi tengst peningaþvætti eigi við rök að styðjast. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Times. Þar er fjallað um lánveitingar bankanna til tengdra aðila og breskra kaupsýslumanna.

Þar segir að skjöl tengd rannsókninni hafi verið send á milli yfirvalda í Danmörku og Íslandi og Bretlandi, Serious Fraud Office, í síðustu viku.

Greinir Times frá því að í víðtækri rannsókn á hruni íslensku bankanna hafi komið upp um óhefðbundna lánasamninga milli bankanna og kaupsýslumanna.

Kaupþing hafi neitað ásökunum um að bankinn hafi komið nálægt peningaþvætti og rifjað upp þegar bankinn höfðaði mál gegn dönsku dagblaði vegna frétta um að útibú Kaupþings í Lúxemborg hafi verið skálkaskjól rússneskra ólígarka, auðkýfingar sem stórauðguðust á einkavæðingunni í Rússlandi eftir hrun Sovétríkjanna 1991. Sátt hafi verið gerð í málinu fyrir utan réttarsalinn.

í frétt Times kemur fram að rannsóknin á falli bankanna beinist hins vegar ekki helst að peningaþvætti heldur sé um hliðarrannsókn að ræða.

Allir bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbanki og Glitnir, hafi lánað háar fjárhæðir til stærstu eigenda sinna á góðum kjörum.

Þegar Glitnir féll hafi komið í ljós að fimmtán stærstu skuldararnir hjá bankanum tengdust allir FL Group á einn eða annan hátt. FL Group, sem var stærsti hluthafinn í Glitni, hafi verið stýrt af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Eins hafi breskir kaupsýslumenn tengst bönkunum og eru þeir Kevin Stanford, Moises og Mendi Gertner nefndir til sögunnar. Stanford segir í viðtali við Times að ekki hefði verið haft samband við hann vegna rannsóknar á falli bankanna.

Talsmaður Gertner bræðranna segir að lánasamningur í tengslum við kaup á hlutabréfum í Kaupþingi væri hluti af stærra samkomulagi við Kaupþing. Hefur Times eftir honum að það hafi verið skilningur þeirra að ef hluturinn væri keyptur í Kaupþingi þá gæti það tryggt þeim fjármögnun hjá bankanum í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka