Fréttaskýring: Segir AGS stunda hér efnahagsleg hryðjuverk

Ragnar Þórisson, sjóðsstjóri hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital, var í hópi þeirra manna sem hélt til Noregs fyrr í þessum mánuði til að freista þess að fá lánalínu upp á 50 milljarða norskra króna.

Fengist slík lánalína, væri að sögn Ragnars hægt að slíta samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Hann segir framgöngu sjóðsins hér á landi hafa verið með ólíkindum. „Sú staðreynd að hér séu ennþá 12% stýrivextir, 12 mánuðum eftir að fjármálakerfið hrundi, getur vart talist annað en efnahagslegt hryðjuverk,“ segir Ragnar. „Framganga sjóðsins hér er aðför að íslensku atvinnulífi.“

Ragnar nefnir að víða um heim hafi aðkoma AGS aðstoðað ríki við að ná sér upp úr erfiðum efnahagslægðum. Hins vegar séu aðferðir sjóðsins ekki viðeigandi í norrænum velferðarríkjum. „Í löndum þar sem 25-30% umsvifa hagkerfisins eru á svörtum markaði geta aðferðir sjóðsins hentað vel. En á landi eins og Íslandi, þar sem allt er upp á borðum, verður vart annað séð en að fórnirnar verði of miklar. Til að mynda er veruleg hætta á að velferðarkerfi Íslands muni seint bíða meðferðar sjóðsins bætur,“ segir hann. Minni og mýkri niðurskurðar sé þörf í ríkisfjármálum til að forðast félagslega upplausn. Sökum þess hversu fáir íbúar Íslands séu, sé fastur kostnaður reksturs hins opinbera hlutfallslega hár: „Þar af leiðandi er takmarkað svigrúm til að skera mikla fitu af ríkisútgjöldum, án þess að taka kjöt með eða sarga inn í beinin sjálf.“

Ragnar nefnir að Ísland ætti að vera fyrirmyndarríki samkvæmt forskrift sjóðsins: „Á Íslandi ríkir lýðræði, frjálst markaðshagkerfi hefur verið fyrir hendi, bankar og önnur fyrirtæki voru einkavædd á sínum tíma, umhverfismál í góðum farvegi og gagnsæi hefur verið ríkjandi á flestum stigum samfélagsins.“

Samskiptin við Norðmenn

„Við skýrðum Norðmönnum frá því hvernig vinnubrögð AGS viðhefðu á Íslandi, og hvernig sjóðurinn hefði beitt sér í Icesave-málinu, fyrir hönd Breta og Hollendinga – og það á sama tíma og allt atvinnulíf hefur verið drepið í dróma vegna okurvaxta og ónýts fjármálakerfis.“ Að sögn Ragnars trúðu norsku þingmennirnir ekki sínum eigin eyrum þegar þau mál voru rædd. Varaformaður frjálslynda vinstriflokksins, Venstre, sagði að mikilvægt væri að koma Íslendingum „á lappirnar aftur, því þá gætu þeir sótt um aðild að Evrópusambandi á tveimur fótum en ekki fjórum.“ Ragnar segir alla þingmenninna sem rætt var við, nema þingmenn Verkamannaflokks Jens Stoltenbergs, hafa spurt hvort Íslendingar ætluðu virkilega að vinna sig út úr þessari kreppu með skattahækkunum. Ragnar segir að gagnrýni ýmissa ráðamanna á Noregsför þeirra félaga hafi verið ótrúleg. „Þarna er um að ræða tvo íslenska þingmenn sem vilja koma Íslandi aftur á lappirnar með því að leggja fram óformlega hugmynd um lánalínu frá Noregi. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei beðið um slíka lánalínu, en hins vegar hefur verið óskað eftir sameiginlegu láni frá Norðurlöndunum, sem Norðmenn samþykktu. Nær allir sýndu okkur mikinn velvilja og vildu fá formlega beiðni um lánalínuna frá stjórnvöldum.“

Ragnar bætir við að greinilega sé ekki vilji hjá stjórnvöldum til að fara þá leið, heldur leið AGS. „Síðan er okkur sagt að Evrópusambandið muni leysa öll okkar vandamál. Það er kannski ekki skrítið að flokkur sem setur allt sitt traust á Evrópusambandið kunni ekki að bera virðingu fyrir fólki sem sýnir frumkvæði.“

Fyrirtækið Ísland

Ragnar segir að ljóst sé að stærstur hluti þjóðarinnar vilji áfram norrænt velferðarríki með góðu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og athafnafrelsi. „Slíkt samfélag verður aldrei byggt upp með skattahækkunum og útþenslu ríkisins. Það skapar ekki verðmæti og hrekur menntafólk úr landi. Þetta vita Svíar sem eiga að heita fyrirmyndarríki norrænu velferðarinnar, en þeir tilkynntu skattalækkanir um daginn sem ætlað er að auka neyslu í þjóðfélaginu. Ríkisstjórn Íslands virðist hinsvegar ætla að fara finnsku leiðina í að vinna sig úr úr kreppunni. Í kreppunni í Finnlandi á síðasta áratug var ekki tekið til í skuldamálum og til varð stétt skuldaþræla. Afleiðingin varð 12 ára kreppa með 20% atvinnuleysi og 25% alkóhólisma,“ segir Ragnar.

„Við getum einfaldlega litið á Ísland sem fyrirtæki með 300.000 hluthafa og 150.000 starfsmenn. Viðskiptajöfnuðurinn hefur snúist algerlega við þannig að við erum með jákvætt sjóðsstreymi. Hér er minna atvinnuleysi en í Svíþjóð og Finnlandi. Við höfum upp á margar spennandi vörur að bjóða, eins og til dæmis græna orku. Grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og álframleiðsla, eru nú að keyra á fullu afli. Íslensk álframleiðsla er sú samkeppnishæfasta í heimi í dag.“ Ragnar segir að komast þurfi undan álögum AGS til að leysa vanda Íslands. „Lánalína upp á 25-50 milljarða norska króna myndi gera okkur það kleift.“ Slík lánalína myndi hjálpa mjög við uppbyggingu íslensks efnahagslífs, koma alþjóðaviðskiptum landsins í eðlilegt horf, auka líkur á að hægt sé að halda velferðarkerfinu við og treysta lánshæfismat landsins. Endurskipulagning skulda sé mjög mikilvæg, en slíkar aðgerðir verða erfiðar á meðan AGS er enn hér á landi að sögn Ragnars. „Við þurfum að hreinsa flugbrautina sjálf, svo íslenska hagkerfið geti hafið sig til flugs á ný.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK