CCP hf., sem framleiðir tölvuleikinn Eve Online, og MP Banki hafa undirritað samninga um endurfjármögnun CCP og flutning allra bankaviðskipta félagsins á Íslandi til MP Banka.
Í kjölfar samningsins hefur CCP greitt upp víxla félagsins sem skráðir voru í Kauphöll Íslands og voru á gjalddaga þann 28. október. Önnur eldri og óhagstæðari lán hafa einnig verið greidd upp og í stað þeirra og víxlanna kemur ný lánsfjármögnun til tveggja ára.
Í tilkynningu er haft eftir Vilhjálmi Þorsteinssyni, stjórnarformanni CCP, að félagið nái með þessu hagstæðri áframhaldandi lánsfjármögnun í íslenskri krónu með miklum sveigjanleika, sem hentar rekstri CCP.
Fram kemur í tilkynningunni að CCP er með skrifstofur í Bandaríkjunum, Kína og Bretlandi ásamt höfuðstöðvum á Íslandi. Bankaþjónustan sé því alþjóðleg og í fjölmörgum myntum en tekjur CCP séu nær eingöngu í bandaríkjadölum og evrum. Rekstur félagsins skilaði 6,4 milljóna dala hagnaði, um 800 milljónum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við rétt rúmar tvær milljónir dala á sama tíma í fyrra. Tekjur af EVE-Online tölvuleiknum námu 25,4 milljónum dala, um 3,18 milljörðum króna, fyrri helming þessa árs en það er rúmlega fjögurra milljóna dala aukning frá í fyrra.