Norski seðlabankinn hækkaði í dag stýrivexti sína um 0,25 prósentur í 1,5%. Er Noregur fyrsta landið í Evrópu sem hækkar stýrivexti á þessu ári. Svein Gjedrem, seðlabankastjóri Noregs, segir að umsvif í norsku efnahagslífi hafi aukist mun meira og hraðar en gert var ráð fyrir.
Stýrivextir voru lækkaðir víðast hvar í heiminum eftir að fjármálakreppan skall á með fullum þunga fyrir ári. Seðlabanki Ísraels hækkaði stýrivexti á ný í ágúst og seðlabanki Ástralíu hækkaði vexti fyrr í þessum mánuði en Noregur er fyrsta Evrópulandið þar sem vextir hækka á þessu ári.
Fjármálakreppan hefur ekki leikið norskt efnahagslíf eins grátt og margra annarra ríkja, aðallega vegna olíuteknanna sem Norðmenn njóta. Eftir stutt samdráttarskeið fór verg landsframleiðsla í Noregi að vaxa á ný á öðrum fjórðungi þessa árs. Svonefnd verg meginlandsframleiðsla, þar sem olíutekjur eru undanskildar, mun aukast um 2,1% á þessu ári ef spár ganga eftir.
Gjedrem sagði, að í ljósi þessa væri tímabært að byrja að hækka stýrivexti. Reiknað er með að norski seðlabankinn muni hækka vextina jafnt og þétt á næstu mánuðum þannig að þeir verði orðnir 2,6% á síðasta fjórðungi ársins 2010.