Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi Seðlabankastjóri, var nefndur oftast þegar spurt var um það í könnun, sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið hver ætti að leiða Íslendinga út úr efnahagskreppunni.
Næstflestir nefndu Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og í þriðja sæti kom Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Í könnuninni voru nefnd nöfn sjö manna: Davíðs, Steingríms, Jóhönnu, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokks, Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Spurt var hverjum þessara einstaklinga þátttakendur myndu treysta best til að leiða Íslendinga út úr efnahagskreppunni. Af þeim sem tóku þátt fengust svör frá 630 manns sem jafngildir 65,1% svarhlutfalli.
24% sögðust treysta Davíð best, 23,2% Steingrími, 20,6% Jóhönnu, 11,5% Bjarna, 4,6% Sigmundi, 3,7% Gylfa og 2,4% Vilhjálmi.
Könnun MMR var unnin fyrir Viðskiptablaðið og gerð í gegnum netið, dagana 13. til 16. október. 968 einstaklingar svöruðu en þeir voru valdir úr hópi tæplega tólf þúsund álitsgjafa MMR, á aldrinum 18 til 67 ára.