Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu verjanda í skattahluta Baugsmálsins um að ákæruvaldið leggi að nýju fram gögn í málinu. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari, segir í samtali við Mbl.is að deilan snúist um hvaða gögn ákæruvaldið megi leggja fram og hvernig framsetning þeirra eigi að vera. „Við lögðum fram okkar gögn fyrir síðustu áramót, en lögum var síðar breytt. Töldu verjendur að lagabreytingin gerði það að verkum að framsetning gagnanna ætti að vera með öðrum hætti og því ætti að leggja þau fram að nýju.“
Gerðu verjendur m.a. þá kröfu að óviðkomandi gögn yrðu ekki lögð fram og að gögnin yrðu flokkuð eftir ákæruliðum og eftir sakborningum. Taldi héraðsdómur að enginn efnismunur væri á eldri og yngri lögum og því þyrfti ekki að leggja gögnin fram að nýju. Þá bæri ákæruvaldinu ekki skylda til að flokka gögn eftir ákæruliðum og sakborningum, en það væri þó til glöggvunar.
Til stóð að aðalmeðferð í málinu hæfist í næstu viku en hún mun frestast vegna þessara deilna. Hugsanlega hefst aðalmeðferð ekki fyrr en eftir áramót, að sögn Helga.