Talið er að bandaríski bankinn CIT Group muni á næstu dögum óska eftir gjaldþrotavernd í samræmi við bandarísk gjaldþrotalög til að koma í veg fyrir fall. Um er að ræða greiðslustöðvun þar sem rekstur fyrirtækja er endurskipulagður til að koma í veg fyrir gjaldþrot.
Að sögn Bloomberg fréttastofunnar gerði bankinn í lok síðustu viku samninga við kaupsýslumanninn Carl Icahn og bankann Goldman Sachs Group. Icahn mun lána bankanum 1 milljarð dala í lausafé og Goldman Sachs mun halda opinni lánalínu ef CIT sækir um greiðslustöðvun.
Að sögn Bloomberg var tap á rekstri bankans yfir 5 milljarðar dala á fyrstu 9 mánuðum ársins og lánamarkaðir, sem CIT hefur getað sótt fjármagn til, hafa nú lokast. Talið er að langtímaskuldir CIT nemi yfir 40 milljörðum dala en eignir bankans eru metnar á 71 milljarð dala. Um 1 milljón lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru í viðskiptum við bankann.
Samkvæmt áætlun um greiðslustöðvun fá lánardrottnar CIT 70 sent af hverjum dal. Verði bankinn þvingaður í gjaldþrot er hins vegar líklegt að lánardrottnar fái aðeins um 6% af til baka.
CIT var bjargað frá yfirvofandi gjaldþroti í júlí þegar nokkrir stærstu lánardrottnar bankans veittu bankanum 3 milljarða dala neyðarlán. Þá hafði Bandaríkjastjórn hafnað að veita bankanum aukið fjárframlag en CIT hafði þegar fengið 2,3 milljarða dala úr opinberum sjóðum.