Bandaríski bankinn CIT Group óskaði í kvöld eftir gjaldþrotavernd í samræmi við bandarísk gjaldþrotalög. Um er að ræða hliðstæðar aðgerðir og greiðslustöðvun samkvæmt íslenskum lögum en bankinn segir, að meirihluti lánardrottna hans hafi fallist á áætlun um endurskipulagningu rekstrarins sem m.a. feli í sér að skuldir verði lækkaðar um 10 milljarða dala.
CIT hefur átt í miklum rekstarerfiðleikum allt þetta ár þrátt fyrir að hafa fengið 2,3 milljarða dala fjárframlag úr opinberum sjóðum á síðasta ári. Þá fékk bankinn 4,5 milljarða dala neyðarlán í síðustu viku.
CIT er einn stærsti lánveitandi til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Bandaríkjunum en talið er að um milljón slíkra fyrirtækja séu í viðskiptum við bankann.
Um er að ræða eitt stærsta gjaldþrot í bandarískri fyrirtækjasögu. CIT er 101 árs gamalt fyrirtæki, sem hefur sérhæft sig í lánveitingum til fyrirtækja. Höfuðstöðvar bankans eru í New York.
Samkvæmt skjölum, sem lögð voru fyrir dómstól í New York í kvöld nema eignir bankans 71 milljarði dala en skuldir 65 milljörðum dala.