Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefur staðfest að bankarnir Lloyds, RBS og Northern Rock verði brotnir upp í minni einingar og seldir til nýrra aðila í bankageiranum. Hann segir að til gætu orðið þrír stórir nýir bankar í Bretlandi á næstu þremur til fjórum árum, vegna þessa.
Ráðherrann segir að hann muni aðeins selja hluta úr bönkunum þegar „vel stendur á" til að tryggja að skattgreiðendur fái eitthvað fyrir sinn snúð. Greint er frá þessu á fréttavef BBC. Þar er sagt að raddir séu uppi um að fyrirtæki á borð við Tesco og Virgin gætu verið á meðal bankakaupenda.
Til þess að auka samkeppni á milli banka verða þessir bankar aðeins seldir nýjum aðilum, en ekki þeim fjármálastofnunum sem eru til fyrir. Darling segir að það sé alls ekki nóg að hafa bara í kringum sex stóra banka. Það sé ekki viðunandi.
Breska ríkið á núna 70% hlut í RBS og 43% hlut í Lloyds.