Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins er handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpa 89 milljarða sem er 107,9 milljörðum króna lakari útkoma heldur en á sama tímabili í fyrra. Tekjur reyndust 25,3 milljörðum minni en í fyrra en gjöldin jukust um 65,8 milljarða.
Í uppgjörinu kemur m.a. fram að vörugjöld af ökutækjum hafa skilað
ríkissjóði 1,5 milljarða króna tekjum á árinu sem er rúmlega fimmtungur þess sem var á sama tíma í fyrra. Vörugjöld af bensíni og díselolíu námu tæpum 13 milljörðum. Vörugjöld af bensíni jukust um 22,6% að nafnvirði á milli ára og var bensínsala meiri yfir sumarmánuðina þrjá en í fyrra.