Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að gengi krónunnar hafi verið stöðugt undanfarið en það sé enn of lágt. Már kynnir nú forsendur fyrir vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands sem kynntar voru fyrr í morgun. Hann segir að minna hafi dregið úr verðbólgu en vonast var til. Það skýrist af lágu gengi krónunnar. Búast megi við því að hægar dragi úr verðbólgu en áður var spáð.
Hann segir að þær breytingar sem gerðar hafa verið á vöxtum Seðlabanka Íslands feli í sér lítilsháttar slökun á peningamálastefnu bankans. Aðgerðir til að draga úr lausafé úr umferð hafi borið árangur. Þetta þýði að aðhald peningastefnunnar hafi aukist. Gengi krónunnar hafi verið stöðugt en enn of lágt.
Endurskipulagning einkageira dregur úr gjaldmiðlaáhættu
„Gengi krónunnar hefur verið nokkurn veginn stöðugt frá því síðla sumars, en eigi að síður lægra en æskilegt væri. Inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa verið hófleg og mun minni en sl. sumar. Hætta sem efnahag einkageirans stafar af lágu gengi krónunnar kann einnig að vera einhverju minni en áður var talið í ljósi nýrra upplýsinga um hversu efnahagsreikningar eru berskjaldaðir fyrir gjaldmiðlaáhættu. Endurskipulagning efnahags einkageirans, sem nú stendur yfir, ætti að draga úr þessari áhættu enn frekar," að því er fram kom í máli Más á fundi með fjölmiðlum.
Fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lokið og segir Már hana mikilvægan þátt í viðleitni til þess að endurheimta traust og forsenda þess að ráðist var í fyrsta áfanga afnáms gjaldeyrishafta, en hann kom til framkvæmda 31. október.
„Eins og gert var ráð fyrir í áætlun um afnám hafta er innstreymi gjaldeyris til nýfjárfestingar nú leyft og fjárfestar hafa fulla heimild til þess að skipta söluandvirði nýrrar fjárfestingar í erlendan gjaldeyri. Fyrstu áhrif þessara aðgerða, ef einhver eru, ættu að vera að styðja við krónuna, en þegar stofn nýrrar fjárfestingar hefur myndast geta áhrifi n á gengi krónunnar verið á hvorn veginn sem er. Í því felst að gengi krónunnar verður næmara fyrir ákvörðunum í peningamálum og væntingum um þær."
Hraðari styrking krónu myndi draga hratt úr verðbólgu
Verðbólga hefur að sögn seðlabankastjóra hjaðnað hægar en áður var vænst, einkum vegna þess að gengi krónunnar hefur verið veikara en spáð var.
„Eigi að síður hefur áfram dregið úr verðbólgu. Í október var verðbólga 9,7%, en 8,8% ef leiðrétt er fyrir áhrifum hækkunar óbeinna skatta. Vegna þess að gengi krónu hefur verið lægra og samdráttur innlendrar eftirspurnar heldur minni, eru horfur á því að verðbólga hjaðni hægar en síðast var spáð. Enn er þó gert ráð fyrir að verðbólga minnki hratt á næsta ári og að undirliggjandi verðbólga verði við verðbólgumarkmiðið á seinni hluta þess árs.
Litlar líkur eru taldar á annarrar umferðar verðbólguáhrifum lægra gengis. Vegna þess að verðbólgan stafar að mestu leyti af veikara gengi, en áhrif launakostnaðar verða lítil og áhrif húsnæðiskostnaður neikvæð, gæti hraðari styrking krónunnar en gert er ráð fyrir í spánni, leitt til þess að verðbólga hjaðni töluvert hraðar en spáð er." Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds fljótlega að vera til staðar, að því er segir í inngangi að Peningamálum sem Seðlabankinn gefur út í dag. „Peningastefnunefndin mun eigi að síður gæta varúðar við ákvarðanir í peningamálum og mun aðlaga aðhald peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika, og til að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið."
Már segir að aukning aðhalds peningastefnunnar með útgáfu innstæðubréfa í september hefði tekist vel.Ef gengi krónunnar helst stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds fljótlega að vera til staðar.