Gylfi: Vaxtalækkun fagnaðarefni

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Rax

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að lækka stýrivexti um eina prósentu fagnaðarefni. Þrátt fyrir að hann hafi viljað sjá meiri vaxtalækkun þá sé jákvætt að kyrrstöðutímabilinu sé að ljúka en stýrivextir bankans hafa verið óbreyttir frá því í júní.

Geta ekki staðið undir svo háum vöxtum

Að sögn Gylfa þá er ljóst að hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu geta staðið undir jafn háum vöxtum og eru á Íslandi. Það sé fagnaðarefni að aftur sé komið í gang vaxtalækkunarferli þó svo meiri lækkun hafi verið æskileg.

„Það er mikilvægt að verið sé að lækka vexti og ákaflega mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að skapa frekari forsendur fyrir lækkun vaxta. Við teljum mikilvægt að við náum því markmiði okkar að vaxtamunur gagnvart evrusvæðinu, sem að okkar mati má ekki vera meira en 4%, náist sem allra fyrst," segir Gylfi.

Hann segir það viðfangsefni Seðlabankans og stjórnvalda að ná því markmiði en miklu skipti að komast út úr kyrrstöðunni og lækka vexti. En segist skynja að það sé líka þrýstingur á seðlabankann að lækka ekki vexti.

Allt að þokast í rétta átt

Gylfi segir ljóst að Ísland sé að þokast á rétta leið, meðal annars með því að svo virðist sem Icesavemálinu sé að ljúka og gjaldeyrishöft séu að minna. „Það  er mikilvægt að horfa til þess að við erum að silast áfram. Það eru búnir að vera allt of margir mánuðir í kyrrstöðu. Þannig að nú er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að vinna að þessu. Það má ekki vera mikið hik í ákvörðunum þeirra. Í þessu samhengi þá ítreka ég það að þrátt fyrir að hafa viljað sjá meiri lækkun vaxta þá er það fagnaðarefni að vaxtalækkunarferli er komið í gang," segir Gylfi.

Hann segist sannfærður um að seðlabankinn muni halda áfram að lækka vexti og væntanlega verði vextir lækkaðir næst í byrjun desember.

Margt jákvæðara en talið var

Gylfi segir að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi fram að mörg atriði eru jákvæðari en áður var talið. Skuldastaða ríkisins sé ekki jafn slæm og talið var þrátt fyrir að skuldastaða þjóðarbúsins sé mikil.Það er mikið fagnaðarefni að sjá að skuldastaða ríkisins, þrátt fyrir þetta erfiða Icesave mál, er betri en menn óttuðust. Sett í samhengi við alþjóðamálin þá kemur mjög skýrt fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að staða okkar lífeyrismála gerir það að verkum að við erum með minnst skuldsettu þjóðum heims," segir Gylfi.

Í mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skuldaþoli Íslands er m.a. tekið fram, að íslenska lífeyrissjóðakerfið gegni lykilhlutverki þegar meta þurfi skuldaþol Íslands. Eignir lífeyrissjóðanna nemi yfir 100% af vergri landsframleiðslu sem sé einna hæsta hlutfallið innan OECD. Þá standi lífeyrissjóðirnir almennt vel. Þess vegna þurfi ekki gera ráð fyrir því að fjármagna þurfi framtíðar lífeyrisskuldbindingar með lántökum eins og fyrirsjáanlegt sé í mörgum löndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK