JP Lögmenn fluttu í vikunni í skrifstofuhúsnæði í turninum við Höfðatorg í Reykjavík. JP Lögmenn eru á 16. hæð turnsins sem er 19 hæða hár, en lögfræðistofan er einnig með aðsetur á Selfossi.
JP Lögmenn hafa vaxið umtalsvert á þessu ári en hjá fyrirtækinu starfa nú 12 manns, níu í Reykjavík og þrír á Selfossi, að því er segir í tilkynningu. Stofan sérhæfir sig m.a. í málflutningi, samkeppnis-, samninga-, kröfu- og gjaldþrotarétti, svo og skaðabótamálum. JP Lögmenn starfrækja m.a. vefinn www.slysabætur.is sem er upplýsingavefur fyrir almenning um rétt til slysabóta og feril slíkra mála.
350 herbergja hótel á Höfðatorg
Í turninum er nú þegar einn matsölustaður og annar mun opna snemma á næsta ári. Þá munu nokkur fyrirtæki hefja starfsemi á Höfðatorgi á næstunni. Mikill áhugi er á turninum og gera forsvarsmenn Höfðatorgs sér vonir um að stór hluti hans verði kominn í leigu á næstu mánuðum, samkvæmt tilkynningu.
Samið hefur verið um rekstur 350 herbergja hótels á Höfðatorgi sem ráðgert er að opni í mars 2012.