Á kröfuhafafundi Glitnis í gær var greint frá því að skuldabréf upp á samtals 752 milljónir evra, eða sem nemur 139 milljörðum króna, hefðu ekki verið bókfærð á skuldahlið bankans þegar hann hrundi í fyrra. Tilkynningin kom kröfuhöfum bankans í opna skjöldu.
Fram kom á fundinum að bréfin hefðu verið gefin út í tengslum við endurhverf viðskipti og ekki seld á markaði. Skuldabréfin hafa þá væntanlega verið lögð fram sem veð gegn aðgangi að lausafé.
Á fundinum neitaði Árni Tómasson, formaður skilanefndar bankans, að svara spurningum um það hvort um væri að ræða forgangskröfu eða almenna kröfu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hvers eðlis krafan er getur haft mikil áhrif á endurheimtur á eignum þrotabús Glitnis.
Í samanburði við Landsbankann og Kaupþing er hlutfall forgangskrafna í þrotabú Glitnis tiltölulega lágt. Innlán eru helstu forgangskröfurnar og þar sem Glitnir fjármagnaði sig aðeins að litlu leyti með erlendum innlánum og íslensk innlán færðust inn í Íslandsbanka flokkast meginþorri krafna á þrotabúið undir almennar kröfur. Séu þessir 139 milljarðar forgangskröfur er ljóst að þær muni hafa meiriháttar áhrif á uppgjör þrotabúsins.