Sveitarfélagið Norðaustur-Lincolnshire í Bretlandi hefur til viðbótar fengið 315 þúsund pund, jafnvirði um 65 milljóna króna, til baka af fjárfestingum sínum í Kaupþingi Singer og Friedlander. Hefur NA-Lincolnshire þá endurheimt 1,2 milljónir punda af 4,5 milljón punda innlögn í Kaupþing.
Frá þessu greinir í blaðinu Grimsby Telegraph í dag. Þar kemur fram að sveitarfélagið hafi alls lagt um sjö milljónir punda inn á reikninga Kaupþings og Landsbankans, jafnvirði um 1,4 milljarða króna. Sem fyrr segir fóru 4,5 milljónir punda í Kaupþing en inn á reikninga Landbankans fóru 2,5 milljónir punda.
Segir blaðið að NA-Lincolnshire hafi lagt stórar fjárhæðir í íslensku bankana skömmu áður en þeir hrundu fyrir um ári, þrátt fyrir aðvaranir fjármálasérfræðinga þar um. Er von á þessum 315 þúsund pundum frá Kaupþingi í næsta mánuði. Ekki liggur fyrir hve mikið kemur til baka úr Landsbankanum en sveitarfélagið gerir sér vonir um 90% endurheimtur. Búist er við að allt að tvær milljónir punda séu tapaðar.