Bandaríski lögfræðingurinn Marc Dreier, sem í sumar var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að svíkja 400 milljónir dala, jafnvirði 50 milljarða króna, út úr viðskiptavinum sínum, fékk vitorðsmann til að þykjast vera stjórandi vogunarsjóðs á Íslandi og aðstoða þannig við að selja fölsuð skuldabréf.
Meðal þeirra sem töpuðu á svikum Dreier var sjóðurinn Novator Credit Opportunities, sem er í eigu Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar. Fram kom á mbl.is í byrjun janúar að áætlað tjón Novators næmi á annan tug milljóna Bandaríkjadala.
Dreier, sem er lögmaður, sendi dómstóli í New York bréf í sumar þar sem hann lýsti því hvernig hann leiddist inn á fjársvikabrautina árið 2002 þegar hann dró sér fé sem skjólstæðingur hans átti. Honum tókst síðan að svíkja út lánsfé úr vogunarsjóðum og notaði lánin til að greiða vexti af eldri lánum og kostnað við rekstur lögmannsstofu sinnar, sem óx afar hratt. Um tíma á síðasta ári störfuðu 250 lögmenn á stofunni.
Saksóknarar segja, að Dreier hafi notað fé sem hann sveik út til að fjármagna munaðarlíf sitt en hann keypti m.a. fasteignir, snekkju, sportbíla og listaverk. Undir lok síðasta árs var hins vegar farið að halla undan fæti og að sögn saksóknara varð hann æ örvætningarfyllri.
Dreier mun hafa hafa haft samband við lögmanninn Robert L. Miller í nóvember á síðasta ári og beðið hann um að þykjast vera stjórnandi kanadísks lífeyrissjóðs. Átti Miller að ræða við fulltrúa vogunarsjóðs, sem Dreier ætlaði að selja 44,7 milljóna dala falsað skuldabréf undir því yfirskyni, að kanadíski lífeyrissjóðurinn ábyrgðist skuldabréfið.
Fram kemur á fréttavef Wall Street Journal í kvöld, að Miller viðurkenndi fyrir rétti í dag að hafa gert þetta fyrir Dreier gegn 100 þúsund dala greiðslu, Sagði hann að Dreier hefði látið sig hafa farsíma með kanadísku svæðis- og símanúmeri. Herbragðið misheppnaðist hins vegar og vogunarsjóðurinn vildi ekki að kaupa bréfið.
Dreier hafði þá samband við annan vogunarsjóð og bauð honum skuldabréfið til sölu. Sagði Dreier að bréfið væri gefið út af íslenskum vogunarsjóði og tryggt af lífeyrissjóði upp á 33 milljónum dala. Dreier fékk Miller á ný í lið með sér og bað hann um að þykjast vera fulltrúi íslenska vogunarsjóðsins. Lét hann Miller hafa farsíma frá Evrópu og bað aðstoðarmann sinn að kanna hvernig veðrið væri í Reykjavík svo Miller væri betur búinn undir símtalið. Daginn eftir þóttist Miller síðan vera fulltrúi „íslenska" sjóðsins í símatali við vogunarsjóðinn.
Miller, sem er 52 ára, starfaði um tíma á níunda áratugnum hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu.