Talsmaður Serious Fraud Office (SFO), rannsóknardeildar fjársvikamála í Bretlandi, segir samstarfið við embætti sérstaks saksóknara á Íslandi ganga vel, það spari báðum aðilum heilmikla fyrirhöfn og komi í veg fyrir tvíverknað.
Frá því í september hafa þessir aðilar skipst á upplýsingum við rannsóknina.
„Við verðum að horfast í augu við að mörg þessara aflandsviðskipta voru stunduð ekki einvörðungu til að hagnast á skattalöggjöfinni heldur til þess að byggja upp lag af leynd og flækjum sem rannsóknarmenn framtíðarinnar þyrftu að kljást við, hvort sem þeir störfuðu fyrir lánardrottna eða lögregluyfirvöld,“ segir Jina Roe, upplýsingafulltrúi SFO, við Morgunblaðið.