Ávöxtun norska ríkiseftirlaunasjóðsins nam 13,5% á þriðja ársfjórðungi og hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi frá því Norðmenn hófu að leggja stærsta hlutann af olíutekjum sínum í sérstakan sjóð.
Sjóðurinn, sem jafnan er nefndur norski olíusjóðurinn, er stærsti einstaki fjárfestirinn á evrópskum hlutabréfamarkaði. Á þriggja mánaða tímabili frá júlí til septemberloka, óx hann úr 2385 milljörðum norskra króna í 2529 milljarða, jafnvirði um 56 þúsund milljarða króna.
Norski seðlabankinn segir í yfirlýsingu, að þessa ávöxtun megi rekja til verðhækkunar á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði og þess að jafnvægi sé nást á öðrum mörkuðum. Að auki runnu 49 milljarðar króna í sjóðinn vegna olíutekna.
Markmiðið með sjóðnum er að fjármagna velferðarkerfi Noregs þegar olíulindirnar undan ströndum landsins þverra.