Minni samdráttur en spáð var

Hagvöxtur á Íslandi á næstu árum hvílir á fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Þetta kemur fram í mati Moody's um lánshæfi Íslands. Matsfyrirtækið lækkaði í dag lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins en segir horfurnar hér á landi stöðugðar og að efnahagssamdrátturinn hafi verið minni en búist var við í fyrstu.

Moody's lækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins um tvö þrep. Skuldbindingar ríkisins í erlendri og innlendri mynt fá nú einkunnina Baa3 en hún var var áður Baa1. Þrepið Baa3 er það lægsta sem telst fjárfestingarhæft og flokkast næsti flokkur fyrir neðan sem skranbréf.

Í fréttatilkynningu Moody's er haft eftir Kenneth Orchard, einum af yfirmönnum Moody's, að nýja matið byggist meðal annars á því að útlit sé fyrir að kreppan hér á landi verði styttri og risti ekki jafn djúpt og í fyrstu var talið. Matsfyrirtækið telur að skuldbindingar ríkisins muni áfram teljast fjárfestingahæfar ef gripið verði til viðeigandi stjórnvaldsaðgerða og að þær leggi grunn að hagvexti árið 2011.

Orchard segir, að í einkunninni Baa3 endurspeglist, að vegin séu þau vandamál sem Ísland þurfi að glíma við eftir bankahrunið á móti auðlegð, sveigjanleika og traustum stofnunum landsins. Stöðugar horfur matsins endurspegli þetta jafnvægi.

Fram kemur í fréttatilkynningunni að hagvöxtur á næstu árum muni aðallega velta á fjárfestingu í útflutningsatvinnuvegunum  þar sem að einsýnt sé að innlend eftirspurn muni ekki standa undir vexti í hagkerfinu á næstu árum. Mat Moody's  byggir  á þeirri forsendu að fjárfesting í áliðnaði og öðrum orkufrekum iðnaði aukist á næstu fjórum árum með þeim afleiðingum að atvinnuleysi minnki og einkaneysla aukist. Moody's telur þó ólíklegt að ráðist verði í frekari fjárfestingu í áliðnaðinum ef heimsmarkaðsverð á áli lækki á ný og fari í sama far og var í marsmánuði.

Sjá tilkynningu Moody's í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK