Breska verslunarkeðjan Debenhams hefur keypt Magasin du Nord í Danmörku af Straumi fjárfestingarbanka. Söluverðið er 101 milljón danskra króna, jafnvirði 2,54 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið verður greitt í reiðufé þegar búið er að ganga frá öllum lausum endum í tengslum við viðskiptin.
Danska sjónvarpsstöðin TV2 segir, að með í kaupunum fylgi fasteignir Magasin utan verslunarhúsið við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn, það verði áfram í eigu félagsins Solstra Holding en það félag er í eigu Straums og kaupsýslumannsins Alshair Fiyaz. Solstra á einnig verslunarhús Illum.
Jón Björnsson, forstjóri Magasin, segir í tilkynningu, sem send var út í morgun, að það sé mjög ákjósanleg staða fyrir Magasin að komast í eigu verslunarfyrirtækis. Debenhams sé eitt fremsta smásölufyrirtæki í Evrópu og búi yfir mikilli þekkingu á rekstri stórverslana og flutnings- og innkaupagetu sem komi Magasin vel.
Hann segir einnig, að Debenhams hafi greinilega metið þá stöðu sem Magasin hafi í danskri smáverslun. Magasin sé sterkt vörumerki sem hafi möguleika á að vaxa enn frekar og styrkjast.
Debenhams er næst stærsta verslunarkeðja á Bretlandseyjum og undir merkjum fyrirtækisins eru reknar 145 verslanir í Bretlandi og Írlandi og 12 verslanir undir hatti Desire. Þá eru verslanir reknar undir nafni Debenhams í 17 öðrum löndum, þar á meðal í Smáralind.
Áætlað er að um 20 milljónir manna versli í Magasin árlega og að veltan sé 1,88 milljarðar danskra króna, jafnvirði rúmlega 47 milljarða króna. Félagið rekur sex verslanir í Danmörku. Rekstarfélag Magasin komst í eigu Straums þegar bankinn yfirtók 75% hlut Baugs í félaginu M-Holding í mars. Solstra Holding keypti í ágúst fimm af fasteignunum sex og rekstrarfélag verslananna.