Debenhams kaupir Magasin

Magasin við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn.
Magasin við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Breska verslunarkeðjan Debenhams hefur keypt Magasin du Nord í Danmörku af Straumi fjárfestingarbanka. Söluverðið er 101 milljón danskra króna, jafnvirði 2,54 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið verður greitt í reiðufé þegar búið er að ganga frá öllum lausum endum í tengslum við viðskiptin.

Danska sjónvarpsstöðin TV2 segir, að með í kaupunum fylgi fasteignir Magasin utan verslunarhúsið við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn, það verði áfram í eigu félagsins Solstra Holding en það félag er í eigu Straums og kaupsýslumannsins Alshair Fiyaz. Solstra á einnig verslunarhús Illum. 

Jón Björnsson, forstjóri Magasin, segir í tilkynningu, sem send var út í morgun, að það sé mjög ákjósanleg staða fyrir Magasin að komast í eigu verslunarfyrirtækis. Debenhams sé eitt fremsta smásölufyrirtæki í Evrópu og búi yfir mikilli þekkingu á rekstri stórverslana og flutnings- og innkaupagetu sem komi Magasin vel.

Hann segir einnig, að Debenhams hafi greinilega metið þá stöðu sem Magasin hafi í danskri smáverslun. Magasin sé sterkt vörumerki sem hafi möguleika á að vaxa enn frekar og styrkjast. 

Debenhams er næst stærsta verslunarkeðja á Bretlandseyjum og undir merkjum fyrirtækisins eru reknar 145 verslanir í Bretlandi og Írlandi og 12 verslanir undir hatti Desire.  Þá eru verslanir reknar undir nafni Debenhams í 17 öðrum löndum, þar á meðal í Smáralind.  

Áætlað er að um 20 milljónir manna versli í Magasin árlega og að veltan sé 1,88 milljarðar danskra króna, jafnvirði rúmlega 47 milljarða króna. Félagið rekur sex verslanir í Danmörku.  Rekstarfélag Magasin  komst í eigu Straums þegar bankinn yfirtók 75% hlut Baugs í félaginu M-Holding í mars.  Solstra Holding  keypti í ágúst fimm af fasteignunum sex og rekstrarfélag verslananna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka