Greiðslustöðvun Kaupþings rennur út á morgun en tæpt ár er síðan bankinn fékk fyrst heimild til greiðslustöðvunar. Samkvæmt upplýsingum úr kröfuhafaskýrslu skilanefndar Kaupþings verður á morgun óskað eftir áframhaldandi greiðslustöðvun bankans en málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þann 21. nóvember 2008 lagði skilanefnd fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar í Héraðsdómi Reykjavíkur, í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti o.fl. Það var gert m.a. til þess að koma í veg fyrir einhliða aðgerðir kröfuhafa og stuðla að fjárhagslegri endurskipulagningu bankans. Héraðsdómur Reykjavíkur veitti heimild til greiðslustöðvunar þann 24. nóvember 2008 til 13. febrúar 2009.
Þann 19. febrúar úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur í kjölfarið að Kaupþing fengi áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar allt til 13. nóvember 2009.
Aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, Ólafur Garðarsson, boðaði kröfuhafa Kaupþings til fundar þann 20. október og leitaði eftir áliti fundarmanna í tengslum við stöðu Kaupþings en mál voru ekki borin til atkvæða og engar formlegar ákvarðanir voru teknar, enda ekki gert ráð fyrir því samkvæmt lögum, að því er segir í kröfuhafaskýrslu skilanefndar Kaupþings.
Greiðslustöðvun veitir Kaupþingi vernd fyrir lagalegum aðgerðum gegn bankanum, svo sem kyrrsetningu eigna, og tryggt að hann hafi nógu víðtækt bankaleyfi til þess að verja eignir hans. Heildartímalengd greiðslustöðvunar getur í mesta lagi verið 24 mánuðir.
Samkvæmt nýjum lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 getur greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis aðallega lokið á þrjá vegu ef það getur ekki staðið við skuldbindingar sínar: töku til slitameðferðar, töku til gjaldþrotaskipta, eða gerð nauðasamninga.